Lögreglan lokaði nýjum gististað

Í gærmorgun lokaði lögreglan á Suðurlandi nýjum gististað í umdæminu þar sem ekki hafði verið sótt um tilskilin leyfi fyrir rekstrinum.

Tveimur næturgestum sem ekki höfðu yfirgefið staðinn þegar lögregla kom þar var vísað út. Rekstraraðilinn var ekki á staðnum en lögreglan hringdi í hann og upplýsti hann um lokunina.

Rekstraraðilinn hringdi skömmu síðar til lögreglu og kvaðst ætla að tilkynna gistinguna sem heimagistingu og flytja lögheimili sitt á staðinn til að geta haldið rekstrinum áfram.

Í heimagistingu mega ekki vera gistipláss fyrir fleiri en tíu einstaklinga og þar sem umræddur gististaður er með mun fleiri rými var ekki um það að ræða af hálfu lögreglu að reksturinn myndi falla undir heimagistingu.

Fyrri greinBaráttusigur í fyrsta leik
Næsta greinGuðlaugur sýnir í Listagjánni