Tveir fluttir með þyrlu á sjúkrahús

Klukkan 10:20 í morgun fékk Neyðarlínan tilkynningu um útafakstur á Kjalvegi. Jeppi hafði farið útaf veginum og hafnað á stóru grjóti.

Þrennt var í bílnum, tveir höfðu komist út af sjálfsdáðum en ökumaðurinn var fastur í bílnum og eitthvað slasaður.

Um klukkustund eftir að tilkynning barst var björgunarsveitafólk úr viðbragðsteymi Eyvindar á Flúðum, slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum, lögreglan og sjúkraflutningamenn komin á staðinn, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Menntaðir sjúkraflutningamenn sem starfa hjá Mountaineers of Iceland við Skálpanes komu einnig á staðinn.

Ekki reyndist þörf á að beita klippum en ökumaðurinn og annar farþeginn voru fluttir á sjúkrahús með þyrlu. Hinn farþeginn var óslasaður og hélt för áfram með hópnum sem þau voru í.

Fyrri greinLéttleikinn í fyrirrúmi á Kastþraut Óla Guðmunds
Næsta greinAlmannavarnafundur í Hveragerði í kvöld