Flóttafjölskyldur heimsóttu Vestmannaeyjar

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image Allir krakkarnir fengu að fara í skipstjórnarklefann, prófa stól skipstjórans og húfu hans. Mynd/Rauði krossinn

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Árnessýslu og Hveragerði, sýrlensku flóttamannafjölskyldurnar sem komu til landsins í lok janúar ásamt flóttamannafjölskyldu frá Afganistan fóru í skemmtilega ferð til Vestmannaeyja á laugardaginn var.

Hópurinn taldi 42 og var hver öðrum hressari í þessari frábæru ferð enda góðir vinir saman að ferðast.

Lagt var af stað snemma morguns, hópurinn sóttur á nokkrum stöðum og ekið sem leið lá til Landeyjarhafnar. Gleðin að fara saman í Herjólf og sigla til eyjunnar fögru var algjör. Allir krakkarnir fengu að fara í skipstjórnarklefann, prófa stól skipstjórans og húfu hans. Það fannst þeim alveg meiriháttar og fengu að sjálfsögðu öll mynd af sér með húfuna góðu.

Þegar til Vestmannaeyja var komið var Herjólfsdalur skoðaður áður en hópnum var boðið í súpu í húsnæði Rauða krossins í Vestmannaeyjum. Þaðan fór enginn svangur. Eftir matinn var farið í Eldheima og fengu allir góða innsýn inn í þann veruleika sem blasti við Eyjamönnum þegar Vestmannaeyjagosið árið 1973. Hópurinn hélt svo aftur í rútuna og fékk skoðunarferð um eyjuna og átti m.a. skemmtilegt stopp í Gaujulundi. Að lokum var farið að spranga, hópurinn fékk kennslu um hvernig ætti að bera sig að og fengu allir að prófa sem vildu. Það vildu flestir og þá sérstaklega eftir að sýrlenski fjölskyldufaðirinn á Selfossi reið á vaðið og sýndi ótrúleg tilþrif, líkt og hann hefði aldrei gert neitt annað.

Hópurinn hélt svo heim á leið með bros á vör og gleði í hjarta. 

Frá þessu er greint á heimasíðu Rauða krossins.


Hópurinn fyrir framan Herjólf. Ljósmynd/Rauði krossinn

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti