Fjórum veitingastöðum lokað tímabundið

Lögreglan á Suðurlandi hefur á þessu ári lokað fjórum veitinga- og gististöðum því þeir höfðu ekki leyfi. Allir voru opnaðir skömmu síðar.

RÚV greinir frá þessu.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að nokkuð virðist um að veitinga og gististaðir séu án leyfa, ýmist ekki sótt um rekstrarleyfi eða þau runnið út án þess að hugað hafi verið að endurnýjun þeirra.

Komi slík mál upp er lögreglu skylt að loka án frekari viðvarana þeim rekstri sem um er að ræða og ekki að finna í lögunum heimild til hennar til að gefa undanþágu eða fresti frá aðgerðum sínum.

„Því verður gjarnan mikið fát hjá rekstraraðilum þegar lögregla kemur á staðinn, gestir bíða gistingar sinnar í gistihúsunum og hópar eiga bókaðan veislumálsverðinn sinn og í hvorugu tilfellanna auðvelt að komast í annað með stuttum fyrirvara,“ segir í dagbók lögreglunnar sem hvetur rekstraraðila til að ganga frá sínum málum til að ekki komi til afskipta lögreglu af rekstri þeirra.

Fyrri greinÞorvaldur ráðinn skólastjóri
Næsta greinÓk á handrið Ölfusárbrúar – ökumaðurinn stökk í ána