Vegleg gjöf eflir hljóðfæraeign skólans

Á síðasta skólaári færði Kirkjukórasamband Rangárvallarprófastsdæmis Tónlistarskóla Rangæinga stóra peningagjöf í tilefni 60 ára afmælis skólans.

Peningagjöf sambandsins hefur verið og er nýtt til að efla hljóðfæraeign skólans. Við skólabyrjun verða teknar í notkun nýjar fiðlur sem keyptar voru í sumar og verða þær meðal annars nýttar til fiðlukennslu leikskólabarna á Laugalandi.

Peningagjöfin var einnig nýtt til að festa kaup á tveimur harmoníkum sem leigðar verða út en hingað til hefur skólinn leigt hljóðfæri frá Selfossi til að anna eftirspurn eftir hljóðfærum. Á næstu vikum og mánuðum kaupir skólinn bæði þverflautur og blokkflautur til að leigja út og í forskólakennslu.

Tónlistarskóli Rangæinga þakkar fyrir þessa góðu gjöf frá Kirkjukórasambandinu.

Fyrri greinHringtorgunum í Reykholti gefin nöfn
Næsta greinÓfremdarástand varðandi aðgengi að framhaldsnámi