Þolmörkum hefur þegar verið náð

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Skaftárhrepps telur ljóst að lækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda í haust muni koma illa niður á sauðfjárbændum í sveitarfélaginu.

Í Skaftárhreppi eru um sextíu bú sem byggja afkomu sína m.a. af sauðfjárbúskap og fjöldi sauðfjár í sveitarfélaginu um 17.000. Í ályktun sveitarstjórnar segir að ljóst sé að slík skerðing á tekjum mun fyrst og fremst leiða til lækkunar launa sauðfjárbænda og óvíst hversu mörg bú koma til með að standa undir því þar sem þolmörkum hefur þegar verið náð.

„Sveitarstjórn Skaftárhrepps telur að tækifæri felist í aukinni samvinnu landbúnaðar og ferðaþjónustu sem hægt sé að nýta mun betur en gert er í dag. Leggja þarf meiri áherslu á markaðssetningu og vöruþróun innanlands fyrir þann mikla fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim,“ segir ennfremur í ályktun sveitarstjórnar sem skorar á forystumenn sauðfjárbænda, sláturleyfishafa og ráðamenn þjóðarinnar að finna framtíðarlausn á þessum alvarlega vanda sem steðjar að greininni.

Fyrri grein„Náum ekki að skapa nægilega góð færi“
Næsta greinÍ sjálfheldu á Fimmvörðuhálsi