Kvenfélagið gaf félagsheimilinu góðar gjafir

Kvenfélag Skeiðahrepps afhenti félagsheimilinu að Brautarholti góðar gjafir fyrr í mánuðinum, meðal annars fullkomið hjartastuðtæki sem staðsett verður í matsal hússins og er öllum aðgengilegt.

Einnig keypti félagið tíu mjög fín standborð sem verða notuð við hin ýmsu tækifæri.

Blóm og kósýheit eru kvenfélagskonunum einnig ofarlega í huga og því ákváðu þær einnig að gera fínt fyrir utan leikskólann/félagsheimilið og sundlaugina. Félagið keypti stór blómaker hjá BM-Vallá og fyllti þau svo af fallegum plöntum.

Fyrir allmörgum árum fékk kvenfélagið einn af völundarsmiðum sveitarinnar, Eirík heitinn frá Votumýri, til að smíða fallegt útiborð til að setja fyrir utan félagsheimilið í Brautarholti. Fyrr á árinu ákvað kvenfélagið að láta smíða annað borð eins og Eiríksborðið og einnig að sjá um að koma því gamla í viðgerð. Nú eru borðin líka komin á sinn stað við sundlaugina og félagsheimilið og njóta sín vel.

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin á fallegum ágústdegi þegar stjórn kvenfélagsins afhenti gjafirnar góðu. Harpa Dís og Skafti standa við eitt af standborðunum og eru með hjartastuðtækið á milli sín. Við Eiríksborðið góða sitja Þórdís gjaldkeri og Matthildur ritari og svo eru blómakerin fallegu í baksýn.

Fyrri greinÞremenningar í villum við Landmannalaugar
Næsta greinSelfoss sigraði Fjölni í fyrsta leik