Eldey kaupir Arcanum ferðaþjónustu

Eldey TLH hf. og Íslenskir Fjallaleiðsögumenn ehf. hafa undirritað kaupsamning um kaup á meirihluta hlutafjár í Arcanum ferðaþjónustu ehf. sem stofnað var árið 2003.

Seljendur, Benedikt Bragason og Tómas Birgir Magnússon, eru stofnendur félagsins en þeir munu áfram vera hluthafar í félaginu að viðskiptunum afloknum. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og er kaupverðið trúnaðarmál.

Starfsemi Arcanum og tengdra félaga ná meðal annars til gönguferða á Sólheimajökul, vélsleðaferða á Mýrdalsjökli, fjórhjólaferða á Sólheimasandi og rekstur kaffihúss á staðnum.

Auk þess ná kaupin til landsins Ytri Sólheima 1A, allrar aðstöðu sem Arcanum er með að Ytri Sólheimum og meirihluta í óskiptu landi Ytri Sólheimatorfu. Landeigendur Ytri Sólheima hafa þegar stofnað með sér félag sem mun sjá um rekstur og uppbyggingu sameignarlandsins og þjónustu við ferðamenn og ferðaþjónustuaðila.

Eldey TLH hf. er fjárfestingafélag sem fjárfestir í afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Hluthafar Eldeyjar eru fimm lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og fleiri fjárfestar. Eldey hefur nú þegar fjárfest í þremur félögum, Norðursiglingu hf. á Húsavík, Gufu ehf. á Laugarvatni og Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (standandi f.v.) Benedikt Bragason frá Arcanum, Hrönn Greipsdóttir frá Eldey, Steinþór Ólafsson ráðgjafi seljenda og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir frá Eldey. (Sitjandi f.v.) Tómas Birgir Magnússon frá Arcanum, Andrína Guðrún Erlingsdóttir frá Arcanum, Elín Sigurveig Sigurðardóttir og Einar Torfi Finnsson frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum og Sveinbjörn Indriðason frá Eldey.

Fyrri greinMyrra Rós á Sólheimum
Næsta greinGjaldfrjáls skólagögn í Flúðaskóla