Sýking af völdum nóróveiru í rénun

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Staðfest er að sýking sem kom upp meðal gesta á Úlfljótsvatni í gær er hefðbundin magapest af ætt Nóróveira. Vinna í fjöldahjálparstöð sem komið var á í Grunnskólanum í Hveragerði hefur gengið vel og virðist sýkingin nú í rénun.

Nú síðdegis voru sex einstaklingar veikir en byrjað er að útskrifa þá sem ekki hafa veikst og mun Skátahreyfingin, í samráði við Rauða kross Íslands, aðstoða þau við að koma sér fyrir en aðstaða að Úlfljótsvatni er enn lokuð.

Undirbúningur að þrifum og sótthreinsun fjöldahjálparstöðvarinnar í grunnskólanum er hafinn og standa vonir til þess að röskun á starfi kennara Grunnskólans í Hveragerði verði sem minnst en til stendur að þeir hefji undirbúning að vetrarstarfi sínu, á komandi vetri, á mánudag.

Fyrri greinLögreglan rannsakar tvö hnífstungumál á Flúðum
Næsta greinNemar á Suðurlandi fá frían mánuð í Strætó