Grunnskólanemendur í Árborg fá ókeypis námsgögn

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image Vallaskóli á Selfossi en einn þriggja grunnskóla í Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu Örnu Írar Gunnarsdóttur, S-lista, að öll grunnskólabörn í Árborg fái öll nauðsynleg námsgögn án endurgjalds þegar skólar hefjast nú í ágúst.

„Það er sérstakt fagnaðarefni að bæjarráð skuli samþykkja tillöguna nú þegar ég flyt hana í þriðja skipti á þessu kjörtímabili. Þetta er ákaflega jákvætt skref og mikilvægt til þess að tryggja jöfnuð meðal nemenda auk þess sem þetta minnkar sóun,“ sagði Arna Ír í bókun eftir að tillaga hennar var samþykkt.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Arna að kostnaður við verkefnið sé í kringum 6,5 milljónir króna á ári og verður honum vísað til viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins.

„Það er mín skoðun að skólaganga barna eigi að öllu leyti að vera án kostnaðar fyrir foreldra. Það að skólinn sjái um að útvega öll námsgögn jafnar aðstöðumun barnanna, minnkar sóun og minnkar truflun sem verður í kennslu þegar nemendur eru ekki með nauðsynleg námsgögn,“ segir Arna Ír.

Bæjarráð samþykkti tillöguna samhljóða og fól fræðslustjóra að vinna að verkefninu í samráði við skólastjóra grunnskólanna í sveitarfélaginu.

Sem fyrr segir hefur Arna Ír lagt fram þessa tillögu tvisvar áður á kjörtímabilinu en hún var ekki samþykkt fyrr en nú - í þriðju tilraun.

„Ég var bjartsýnni að þessu sinni þar sem við höfum að undanförnu verið að frá fréttir að sífellt fleiri sveitarfélögum sem stíga þetta góða skref,“ sagði Arna Ír að lokum.

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti