Bleikar og bláar heyrúllur munu prýða tún á landsbyggðinni í sumar

Í fyrrasumar sló uppátækið „Bleikar heyrúllur" í gegn en um var að ræða átak bænda, dreifingaraðila og framleiðanda heyrúlluplasts um að minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja málefnið á sama tíma.

Framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur, lögðu samtals fram andvirði þriggja evra af hverri seldri bleikri plastrúllu sem hver dugir á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. 900 þúsund krónur söfnuðust í átakinu sem notaðar voru til endurnýjunar tækja til brjóstamyndatöku í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Nú í sumar hafa bláar heyrúllur einnig verið sjáanlegar á túnum á landsbyggðinni og er markmiðið með sölu bláa heyrúlluplastsins að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein. Þrjár evrur af sölu hverrar bleikrar rúllu munu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á brjóstakrabbameini og að sama skapi munu þrjár evrur af sölu hverrar blárrar rúllu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á blöðruhálskrabbameini.

Upprunalega hugmyndin er frá viðskiptavini framleiðanda heyrúlluplastsins, Trioplast, á Nýja Sjálandi sem bað um bleikt rúlluplast til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir með bleika litinn og tryggt að hann stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú þegar hafa bleikar heyrúllur hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi og fjölda annarra landa og vakið mikla athygli.

Í tilefni af þessu skemmtilega frumkvæði bænda og dreifingaraðila verður haldin myndasamkeppni á Instagram um skemmtilegustu og frumlegustu myndirnar. Öllum er velkomið að taka þátt og vekja athygli á mikilvægu málefni. Merktu þína mynd #bleikrulla eða #blarulla

Fyrri greinGrímsævintýri á laugardaginn
Næsta greinGrunnskólanemendur í Árborg fá ókeypis námsgögn