Heimilisdýrum fjölgar í Veiðisafninu

Ljósmynd/Veiðisafnið

Heimilisdýrum í Veiðisafninu á Stokkseyri hefur fjölgað en alls hafa átta uppstoppuð dýr frá Suður-Afríku bæst í safnið.

Nú má meðal annars sjá leirbukk, antilópur, vörtusvín, skrúfhyrnu, gný og frampart af sebrahesti í sýningarsölum Veiðisafnsins.

„Margir safngestir Veiðisafnsins hafa beðið eftir þessari sendingu því von hefur verið á þessum dýrum um nokkurn tíma og er það sönn ánægja að tilkynna að dýrin eru komin í hús. Einnig hafa verið settar inn 300 nýjar ljósmyndir í myndamöppur safnsins sem hafa notið mikilla vinsælda gesta,“ segir Páll Reynisson, eigandi Veiðisafnsins.

„Hlutfall gesta sem koma hér aftur og aftur á Veiðsasfnið er mjög hátt, kom það í ljós strax á fyrstu árum safnsins og er virkilega gaman að sjá fjölskyldur koma hér aftur og aftur, oftar en ekki með stækkandi barnahóp,“ segir Páll og bætir við að miklar breytingar hafi átt sér stað frá opnun safnsins 2004.

„Það hefur verið bætt í safnkostinn alla tíð og má þar nefna uppstoppuð dýr, skotvopn og veiðitengda muni svo eitthvað sé nefnt og ekki má gleyma íslensku veiðimönnunum sem hafa sérstakan sess hér, bæði persónulegir munir, ljósmyndir og byssur frá landsþekktum veiðimönnum.“

Páll segir að enn vanti nokkur dýr í safnið. Í síðustu veiðiferð hafi hann aftur reynt að veiða hýenu, en það hafi ekki gengið.

„Einnig má nefna það að yngsta kynslóðin spyr mikið um flóðhest sem einnig stendur til að reyna að ná í. Börn eru vel meðvituð í dag um dýraríkið og þau hafa gaman af því að skoða dýrin hér í Veiðisafninu í návígi, sem margir lýsa sem einstakri upplifun,“ segir Páll að lokum.

Veiðisafnið er opið alla verslunarmannahelgina.

Fyrri greinMeð þyrlu á sjúkrahús eftir bílveltu á Sprengisandi
Næsta greinÁrlegur flóamarkaður að Kvoslæk