Gáfu Eyvindi gjöf í minningu Jennýjar Lilju

Minningarsjóður Jennýjar Lilju færði Björgunarfélaginu Eyvindi á Flúðum öndunarvél og súrefnismettunarmæli að gjöf um helgina.

Minningarsjóður Jennýjar Lilju var stofnaður af fjölskyldu Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur sem lést af slysförum aðeins þriggja ára gömul á bænum Einiholti í Biskupstungum þann 24. október 2015.

Með gjöfinni vill fjölskyldan þakka björgunarfélagi Eyvindar fyrir aðkomu þeirra að slysinu. Björgunarfélagið Eyvindur starfrækir vettvangshjálparhóp sem er í samstarfi við Sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hópurinn er kallaður út þegar upp koma alvarleg veikindi eða slys í uppsveitum Árnessýslu. Í uppsveitunum er langt í sérhæfða aðstoð og því nauðsynlegt að hafa yfir að ráða hóp sem hefur þekkingu og búnað sem þarf til að geta brugðist skjótt við og getur hafið fyrstu hjálp þar til sérhæfð aðstoð berst.

Minningarsjóður Jennýjar Lilju hefur verið skráður í Hlaupastyrk hjá Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Markmiðið með minningarsjóðnum er að styrkja einstaklinga sem misst hafa ástvin á barnsaldri, vinahópa/vinnufélaga til að sækja sér fræðslu og einnig viðbragðsaðila til tækjakaupa. Auk þess að styðja við bakið á Eyvindi á Flúðum hefur Félag sjúkraflutningamanna á Suðurlandi áður fengið peningagjöf og einnig þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sem fékk ómtæki að gjöf, til að nota um borð í þyrlum sveitarinnar.

Fyrri greinFannar fjórði á Íslandsmótinu
Næsta greinTveir piltar slösuðust þegar fjórhjól valt