Ferðamenn böðuðu sig í Ölfusá

Veiðimönnum á miðsvæðinu í Ölfusá brá heldur betur í brún í morgun þegar tveir ferðamenn tóku morgunbaðið í ánni við Hrefnutanga um klukkan níu í morgun.

„Þetta var mjög heimskulegt hjá þeim. Áin er í örum vesti og um 10°C heit. Þó að hún virðist straumlétt þarna þá er mjög þungur straumur þarna og þetta er veiðisvæði,“ sagði Sigurjón Valgeir Hafsteinsson, í samtali við sunnlenska.is, en hann tók myndina af mönnunum í ánni. Tæpum 200 metrum neðar eru hættulegar flúðir í ánni.

„Við ætluðum að hringja í lögregluna, en áin var of köld fyrir þá og þeir voru fljótir uppúr. Þeir fóru aðeins í kaf og flúðu svo upp á bakkann,“ sagði Sigurjón.

Ölfusá er vatnsmesta fljót á Íslandi og er umferð á henni bönnuð í Sveitarfélaginu Árborg. Ekki kemur fram í lögreglusamþykkt sveitarfélagsins hvort böð í ánni séu óheimil.

Fyrri greinSölvi kominn heim
Næsta greinMaðurinn er erlendur hælisleitandi