Netpartar taka við ökutækjum til förgunar

Þessi glæsilega Lada Sport, árgerð 1989, má muna fífil sinn fegri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg hefur samið við Netparta ehf. um að taka við ökutækjum til afskráningar og förgunar sem áður komu til móttöku á Gámastöð Árborgar.

Ekki er lengur tekið við ökutækjum á Gámastöð Árborgar við Víkurheiði. Ekki þarf þó að leita langt til að komast til Netparta, sem eru í Byggðarhorni, aðeins sunnar í Sandvíkurhreppnum.

Netpartar taka við ökutækjum til afskráningar og úrvinnslu í Sveitarfélaginu Árborg og fyrirtækið hefur milligöngu um greiðslu skilagjalds og gefa út skilavottorð.

Netpartar eru þjónustuaðili fyrir Úrvinnslusjóð og gegnir hlutverki söfnunarstöðvar. Fyrirtækið uppfyllir öll starfsleyfisskilyrði móttökustöðvar fyrir ökutæki sem áformað er að farga, þ.m.t. samræmd starfsleyfiskilyrði vegna mengunarvarna.
Fyrri greinGefa allan aðgangseyrinn til Suðra
Næsta greinVindmylla ónýt eftir eldsvoða