Fyrsta fyrirtækið í uppsveitunum til að fá viðurkenningu Vakans

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image (F.v.) Rakel Theodórsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Friðheima, Helena Hermundardóttir, Áslaug Briem frá Vakanum og Knútur Rafn Ármann.

Friðheimar í Reykholti er nýjasti þátttakandinn í Vakanum og fyrsta fyrirtækið í uppsveitum Árnessýslu til að fá viðurkenningu Vakans.

Meginmarkmið Vakans er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi.

Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í síðustu viku og við sama tækifæri vígt nýtt hús í Friðheimum sem hýsir eldhús, skrifstofur og fundaraðstöðu.

„Við í Friðheimum leggjum mikla áherslu á að bjóða upp á góða og faglega þjónustu sem og gæða vöru. Til að geta gert það sem best verður á kosið er mikilvægt að hlúa vel að starfsfólkinu, samfélaginu, umhverfinu og gestunum. Með þátttöku í Vakanum höfum við náð að halda vel um þessa þætti og skapa okkur stefnu sem nýtist okkur í þessu utanumhaldi sem skilar sér svo aftur í hagkvæmari rekstri fyrirtækisins,“ segir Rakel Theodórsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Friðheima. 

„Við erum stolt af því að vera þátttakendur í Vakanum þar sem markmiðið er að stuðla að góðri og ábyrgri ferðaþjónusta á Íslandi sem og sjálfbærum atvinnurekstri. Við viljum líka þakka starfsfólki Vakans fyrir frábæra handleiðslu sem og mjög aðgengileg og gagnleg hjálpargögn,“ bætir Rakel við.

Rauði þráðurinn í starfsemi Friðheima er tómatar í ýmsum myndum. Gróðurhúsin eru opin og fá gestir innsýn í ræktunina með stuttum og fræðandi fyrirlestri. Þar má líka skoða sýningu um ylrækt á Íslandi og til sölu eru matarminjagripir.

Rómaður veitingastaður er einnig í gróðurhúsinu þar í boðið er að snæða tómatsúpu og nýbakað brauð ásamt öðru góðgæti í notanlegu umhverfi innan um tómatplönturnar.

Síðast en ekki síst er allt sumarið boðið upp á hestasýningar með skemmti- og fræðsluívafi, ásamt heimsókn í hesthúsin sem er nú í boði allt árið.

Sem sjá má af þessi upptalningu er starfsemin fjölbreytt en viðurkenning Vakans tekur til allrar ferðaþjónustustarfsemi Friðheima ásamt því sem veitingastaðurinn fær sérstaka vottun. Þá taka Friðheimar þátt í umhverfisþætti Vakans með brons-viðurkenningu.

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti