Lögreglan mun heimsækja alla gistiskála á hálendinu

Hálendisvegir eru nú óðum að opnast og þannig er nú orðið fært norður Sprengisand í Bárðardal, fært er inn í Landmannalaugar frá Sigöldu en mikið vatn lokar Dómadalsleiðinni inn í Laugar. Þá er Kjalvegur fær.

Ljóst er að ferðamenn verða margir á hálendinu í sumar og í fyrstu eiginlegu sumareftirlitsferð um hálendisferð lögreglunnar á sumrinu voru þeir þegar byrjaðir að týnast þangað inneftir. Tjaldbúar eru t.d. farnir að hreiðra um sig í Landmannalaugum.

Lögreglan á Suðurlandi mun verða með virkt eftirlit á hálendi umdæmisins á komandi sumri eins og á síðasta ári en ljóst er að árangur af því verkefni er umtalsverður. Þannig er það mat þeirra sem til þekkja að verulega hafi dregið úr spjöllum vegan utanvegaaksturs og einnig úr ölvunarakstri við það að þetta eftirlit var tekið upp.

Nú á næstu vikum mun lögregla fara í þá skála á hálendinu þar sem gisting er seld ferðamönnum og kanna hvort fyrir liggi rekstrarleyfi Sýslumanns með tilheyrandi uppáskrift frá eldvarnaeftirliti, heilbrigðiseftirliti og lögreglu en nokkuð hefur vantað upp á að svo sé.

Lagaramminn er skýr, lögreglu ber að loka þeim stöðum þar sem þessi leyfi eru ekki fyrir hendi og því skorum við á rekstraraðila að koma þessu í lag hið snarasta ef upp á vantar. Þetta á við hvort sem gisting er seld í svefnpokapláss eða í úppábúin rúm.

Fyrri greinJónsmessuhátíðin á laugardaginn
Næsta greinÖrn Östenberg í Selfoss