Skógafoss á rauðan lista

Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Á tveggja ára fresti er svo gefinn út svokallaður „rauði listinn – svæði í hættu“ sem byggður er á ástandsskýrslunni.

Eitt af markmiðum rauða listans er að forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar, að auka meðvitund um ákveðna hættu og efla samstarf meðal umsjónaraðila, hagsmunaaðila og stofnana sem koma að fjármögnun, skipulagingu, vöktun og stjórnun svæða.

Sú breyting hefur nú orðið að eitt svæði, náttúruvættið Skógafoss, færist af appelsínugulum lista á rauðan lista. Svæðið lætur mikið á sjá vegna gríðarlegrar aukningar á ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring. Lítil landvarsla er á svæðinu og stýringu ferðamanna um svæðið er ábótavant.

Friðlandið Fjallabak og Geysir eru áfram á rauða listanum að sinni. Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á svæðunum að undanförnu hafi verið mikilvægar en dugi ekki til að þau fari af rauða listanum að þessu sinni. Landvörslu þarf að bæta umtalsvert á öllum þessum svæðum til að auka vernd þeirra.

Umhverfisstofnun hefur fjölgað heilsársstörfum nokkuð á undanförnum árum. Nú er svæðalandvörður á Hellu og þá hefur verið ráðinn starfsmaður sem sinnir Gullfossi og Geysi sem og sérfræðingur fyrir Kerlingafjöll en til stendur að friðlýsa það svæði.

Fyrri greinFjögurra marka sigur á Afríku
Næsta greinJónsmessuhátíðin á laugardaginn