Stærsta áskorun íslenskra skáta til þessa

Íslenskir skátar eru gestgjafar á fimmtánda World Scout Moot nú í sumar. Fyrri hluti mótsins fer fram á ellefu stöðum á landinu en síðari hlutinn verður á Úlfljótsvatni.

Mótið er haldið á vegum heimssamtaka skáta, World Organization of the Scout Movement (WOSM). World Scout Moot er heimsmót eldri skáta en þátttakendur eru ungt fólk á aldrinum 18 til 25 ára auk sjálfboðaliða 26 ára og eldri.

Mótið verður sótt af yfir 5.000 skátum frá 106 löndum. Um 450 Ástralir, 360 Svisslendingar og 300 Brasilíumenn mæta til leiks, 85 frá Hong Kong og meira að segja munu mæta 15 frá Suður Afríku. Lang stærsti hópurinn kemur frá Bretlandi eða um 650 manns. Um 100 íslenskir skátar taka þátt sem þátttakendur. Yfir 300 íslenskir skátar hafa sinnt undirbúningi og skipulagningu mótsins frá árinu 2013 og vinna að því að gera upplifun þátttakenda ógleymanlega.

Mótið stendur yfir í níu daga frá 25. júlí til 2. ágúst 2017 og verður sett í Laugardalnum. Í framhaldinu dreifast þátttakendur á ellefu miðstöðvar víðsvegar um landið, meðal annars á Þingvelli, Heimaland, Selfoss, Hveragerði og Hólaskjól. Þar munu þátttakendur taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem snýst um ævintýri og virkni, menningu og umhverfi. Þeir munu einnig leggja samfélaginu lið með 20.000 vinnustundum í sjálfboðavinnu. Slík verkefni eru t.d. göngustígagerð, hreinsun stranda, leikir fyrir börn svo fátt eitt sé nefnt.

Síðari hluta mótsins sameinast þátttakendur á Úlfljótsvatni en þar verður fjölbreytt dagskrá fyrir þátttakendur. Mótinu verður slitið á Úlfljótsvatni 2. ágúst. Margir þátttakendur ferðast um Ísland fyrir eða eftir mótið en að meðaltali eru þátttakendur á landinu í um þrjár vikur. Áætlaðar gjaldeyristekjur af mótinu eru yfir 2 milljarður íslenskra króna en af því eru um 500 milljónir í beinan kostnað vegna mótsins.

Fyrri greinBláskógaskokk HSK á sunnudag
Næsta greinFimmta hjólabók Ómars Smára