Daníel ráðinn framkvæmdastjóri Samtakanna '78

Daníel Arnarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtakanna '78 og hefur hann störf þann 1. júlí næstkomandi.

Eftir að Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir framkvæmdastýra sagði starfi sínu lausu hóf stjórn samtakanna ráðningarferli með því að leita til umsækjenda sem sóttu um stöðuna síðla árs 2016 og voru þá metnir hæfir af stjórn og mannauðsráðgjöfum. Úr varð að Daníel var boðin staðan.

Daníel hefur nýlokið námi við Háskóla Íslands en hann útskrifast þaðan með BA gráðu í félagsfræði. Hann hefur verið virkur í félagastarfi síðan 2007, bæði í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem og í Samtökunum ’78. Hann hefur tekið þátt í ungliðastarfi og kosningabaráttu árin 2009, 2013 og 2016 og er jafnframt varaþingmaður fyrir VG og situr í stjórn hennar. Daníel er vel kunnugur rekstri en hann var framkvæmdastjóri VG frá 2014-2016 og rak áður kaffihús Te & Kaffi ásamt öðrum.

Í tilkynningu frá stjórn Samtakanna ’78 segir að Daníel hafi mikinn áhuga á mannréttindabaráttu og hafi ávallt sett hana á oddinn þegar kemur að félagslegu starfi, bæði innan pólitíkurinnar sem og í öðrum störfum. Daníel sat í trúnaðarráði Samtakanna ’78 frá mars 2015 til september 2016. Reynsla Daníels af rekstri og því vinnuumhverfi sem hann kemur úr mun koma sér vel í starfi Samtakanna ’78.

Fyrri greinStefnt að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum
Næsta greinBláskógaskokk HSK á sunnudag