Sauma fjölnota innkaupapoka fyrir öll heimili í hreppnum

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image Laufey Guðmundsdóttir, formaður Kvenfélags Grímsneshrepps, Ingibjörg Harðardóttir, sveitastjóri Grímsnes- og Grafningshrepps, Kristín Carol Chadwick, kvenfélagskona.

Nú í vikunni fengu íbúar Grímsnes- og Grafningshrepps fjölnota innkaupapoka í póstkassann sinn. Pokarnir eru saumaðir úr gömlu gardínuefni og gömlum dúkum og er það Kvenfélag Grímsneshrepps sem stendur fyrir verkefninu.

„Tildrög verkefnisins voru að á vorfundi félagsins í fyrra fengum við fæðslufyrirlestur um rusl, hversu mikið félli til, hvernig ruslamagn tengist efnahagssveiflum í samfélaginu, hvernig það flokkað og hvar er hægt að gera betur svo að dæmi séu nefnd,“ segir Laufey Guðmundsdóttir, formaður kvenfélagsins.

„Ekki kaupa rusl“
„Það sem stóð uppúr fyrirlestrinum var þessi setning „Ekki kaupa rusl“. Það er ekki kaupa of stórar pakkningar þar sem innihaldið verður aldrei klárað og minni einingar eru til, ekki kaupa hluti, föt, mat og annað sem ekki verður notað og fer þar af leiðandi beint í ruslið,“ segir Laufey.

„Einnig kom fram það gífurlega magn af matvælum og lífrænum úrgangi sem fer beint í ruslatunnuna okkar sem hægt væri að koma í veg fyrir með vandaðri innkaupum, flokka betur og endurnýta eins og með moltugerð eða hreinlega fá sér hænur sem svo framleiða egg fyrir þig í staðinn.“

Gamlir dúkar úr félagsheimilinu fengu nýtt líf
„Í framhaldi áskotnaðist kvenfélaginu mikið magn af efni í allskyns litum og mynstri auk gömlu dúkanna úr félagsheimilinu. Út frá því fórum við að huga að því hvernig þetta efni myndi nýtast best og kom sú hugmynd upp að sauma taupoka úr þessu og færa íbúum sveitarfélagsins þá að gjöf. Þannig gætum við hvatt íbúa til að lágmarka plastpokanotkun við innkaup sem dæmi,“ segir Laufey.

„Við notuðumst við grunnsnið sem ein félagskona hjá okkur, Elsa Jónsdóttir, átti. Það voru félagskonur sem unnu pokana og skiptu með sér verkum, lituðu efni ef þurfti, sniðu þá til, saumuðu, merktu og straujuðu.“


Anna Margrét Sigurðardóttir og Ágúst Gunnarsson á Stærri-Bæ ánægð með pokann sinn.

Fólk strax farið að nota pokana
Laufey segir að viðtökurnar við pokunum hafi verið mjög góðar. „Það var vel tekið á móti okkur og pokunum þegar við dreifðum þeim á heimili í sveitinni. Það var líka gaman að heyra hvað margir notuðust nú þegar við fjölnota poka við innkaupin.“

Aðspurð hvort það standi til að fara út í frekari umhverfisverkefni sem þessi, segir Laufey að þær kvenfélagskonur séu ekki komnar svo langt. „Mögulega kvikna fleiri hugmyndir út frá þessu verkefni. Kannski eitthvað sem snýr að þeim fjölda sumarbústaða sem er á svæðinu. Maður hefur oft á tilfinningunni að þó að fólk flokki ruslið sitt og gangi vel um heima hjá sér þá virðist stundum gilda aðrar reglur þegar fólk skellir sér upp í bústað,“ segir Laufey að lokum.


Ég var eitt sinn dúkur,“ segja pokarnir meðal annars.

 

 

 

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti