78 milljón króna samningur milli Árborgar og ungmennafélagsins

Þann 15. maí sl. voru undirritaðir samningar milli Sveitarfélagsins Árborgar og Ungmennafélags Selfoss um áframhaldandi stuðning sveitarfélagsins við starf ungmennafélagsins ásamt rekstrarsamningum um Selfossvöll, motocrossbraut og júdósal.

Þjónustu- og styrktarsamningurinn sem gildir til eins árs eða út árið 2017 felur í sér greiðslur árið 2017 upp á rúmar 43,2 milljónir króna ásamt rúmlega 34,6 milljón krónum í rekstrarsamningum.

Í þjónustusamningnum er lagt til fjármagn til reksturs skrifstofu Umf. Selfoss ásamt barna- og unglingastyrk, jólasveinanefnd, afreksstyrk, íþrótta- og tómstundaskóla og akademíustyrk. Sú nýjung er í samningnum að sveitarfélagið leggur nú sérstaka upphæð í meistaraflokka félagsins.

Það voru Guðmundur Kr. Jónsson og Gissur Jónsson sem undirrituðu samninginn fyrir hönd Umf. Selfoss og þau Ásta Stefánsdóttir, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Kjartan Björnsson og Gunnar Egilsson fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar.

Fyrri greinKynningarfundur á barna- og unglingastarfi GOS
Næsta greinKvenfélag Hvammshrepps gefur til HSU í Vík