SSK hvetur stjórnvöld til að bæta úr brýnni þörf aldraðara og sjúkra

Samband sunnlenskra kvenna lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu mála er varða aldraða og sjúka á Suðurlandi.

Á ársfundi SSK í apríl síðastliðnum var samþykkt ályktun þar sem stjórnvöld, bæði ríkis og sveitarfélaga, eru hvött til að grípa strax til aðgerða og leggja aukið fjármagn í þennan málaflokk, svo unnt verði að bæta úr brýnni þörf og tryggja nauðsynlega umönnun á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Í greinargerð með ályktuninni segir að það sé algjörlega óásættanlegt að tveimur dvalarheimilum í Árnessýslu með samtals 50 legu-rýmum hafi verið lokað án þess að nokkur ný kæmu í staðinn.

„Íbúum þessara dvalarheimila var komið fyrir á öðrum dvalarheimilum þar sem biðlistar voru fyrir, svo ekki styttust þeir!“ segir í greinargerðinni.

Fundurinn mótmælir því að aldraðir og sjúkir séu fluttir langan veg í burtu frá heimili og ástvinum sínum, til dvalar um lengri eða skemmri tíma. Einnig mótmælir fundurinn því harðlega að hjón séu aðskilin gegn vilja sínum ef annað er veikara en hitt.

„Við spyrjum hvers konar samfélag er það sem virðist ekki vilja veita elstu kynslóð sinni skjól. Fólkinu sem vann hörðum höndum og barðist fyrir ýmiskonar réttindum sem okkur finnast sjálfsögð í dag. Kynslóð sem með ærinni fyrirhöfn byggði upp velferðarkerfi okkur öllum til handa. Velferðarkerfi sem í dag hefur síðan ekkert pláss á stofnunum þegar þetta fólk er orðin gamalt og veikburða. Hvar er þakklæti og virðing ráðamanna þjóðarinnar fyrir framlagi þessa fólks?“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Ársfundur SSK hvetur stjórnvöld bæði ríkis og sveitarfélaga til að grípa strax til aðgerða og leggja aukið fjármagn í þennan málaflokk svo unnt verði að tryggja nauðsynlega umönnun bæði á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Jafnframt þarf að tryggja að næg hvíldarrými séu til staðar nærri heimabyggð fólks því þau eru ein helsta forsenda þess að aldraðir einstaklingar geti búið sem lengst inni á eigin heimilum.

Fyrri greinÖruggt hjá Hamri – Stokkseyri gerði jafntefli
Næsta greinÁlft fóstrar tvo fallega gæsarunga