Heilsustofnun í Hveragerði vann nýsköpunarverðlaun ESPA

Heilsustofnun í Hveragerði sigraði í sínum flokki “Innovative Health Spa Program” þegar nýsköpunarverðlaun ESPA, Evrópsku Heilsulindasamtakanna voru veitt við hátíðlega athöfn á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Róm 11. maí sl.

Árlega eru veitt verðlaun til aðila innan samtakanna sem skara framúr og er þetta í þriðja sinn sem Heilsustofnun fær nýsköpunarverðlaun.

Nýsköpunarverkefni Heilsustofnunar snýst um streitumeðferð sem Heilsustofnun býður upp á. Þetta námskeið er ætlað einstaklingum sem er vísað af læknum til Heilsustofnunar, og eru með alvarleg streitueinkenni eða kulnun. Alvarleg streita er að verða stöðugt stærra vandamál í íslensku þjóðfélagi sem og víðar í hinum vestræna heimi.

Það sem gerir streitumeðferð á Heilsustofnun sérstaka er að skjólstæðingar dvelja á Heilsustofnun í fjórar vikur og gefst því tækifæri til að stíga út úr sínu streituvaldandi umhverfi og læra nýjar leiðir til að ná heilsu undir leiðsögn sérfræðinga. Meðferðin er heildræn og þverfagleg, mikil fræðsla, viðtöl við lækna, geðhjúkrunarfræðinga eða sálfræðinga, ýmis hreyfing, og holl og góð næring.

Heilsustofnun vakti mikla athygli hjá öðrum þjóðum á þinginu og er mikill áhugi á því starfi sem þar fer fram.

Fyrri greinEmil Karel með landsliðinu á Smáþjóðaleikana
Næsta greinMark í andlitið í uppbótartíma