Bætt rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2016 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur sveitarsjóðs sem að mestu leyti er fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti sem eru stofnanir í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Samstæða sveitarfélagsins, A- og B-hluti, skilar afgangi frá rekstri upp á tæplega 108 milljónir króna, samanborið við 21 milljón króna halla árið 2015. Skuldahlutfall samstæðunnar lækkar meira en áætlun gerði ráð fyrir og fer skuldaviðmið samstæðu í 133,7%, en var 148,4% í árslok 2015. Skuldir við lánastofnanir lækkuðu um 147,5 milljónir króna milli ára. Skammtímaskuldir lækka um 103 milljónir króna. Lífeyrisskuldbindingar hækka aftur á móti um 229,4 milljónir króna á milli ára.

Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga hækkaði verulega, var 151 milljónir króna og 107,3 milljónum yfir áætlun ársins. Gjaldfærslan hækkaði um 126,4 milljónir króna á milli ára, en til samanburðar lækkaði hún um 36 milljónir króna á milli áranna 2014 og 2015. Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga hefur því veruleg áhrif í rekstri sveitarfélagsins, langt umfram áætlun og langt umfram þróun síðustu ára.

Útsvarstekjur voru 177 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir og voru heildartekjur sveitarfélagsins um 300 milljónum yfir áætlun. Veltufé frá rekstri var 1.048 milljónir króna eða 13,7% af heildartekjum.

„Niðurstaða ársreiknings fyrir árið 2016 er jákvæð. Afgangur er af rekstri samstæðu, tekjur aukast og sjóðstreymi lagast. Skammtíma- og langtímaskuldir lækka og skuldahlutfall lækkar umtalsvert. Þrátt fyrir þetta er enn halli á rekstri aðalsjóðs og A-hluta, þrátt fyrir að tekist hafi að minnka þann halla talsvert á milli ára. Enn þarf því að gæta aðhalds í rekstri,“ segir í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Fyrri greinKynning á Háskólabrú Keilis á Selfossi
Næsta greinGæslan æfði vatnsöflun úr Ölfusá