Ægir mætir Þór á Akureyri

Í hádeginu í dag var dregið í 32-liða úrslit í Borgunarbikar karla í knattspyrnu. Þrjú sunnlensk lið voru í pottinum.

Selfoss, sem leikur í Inkasso-deildinni, fær Kára frá Akranesi í heimsókn, en Kári leikur í 3. deildinni. Selfoss náði frábærum árangri í keppninni í fyrra og fór alla leið í undanúrslit. Leikurinn verður á JÁVERK-vellinum 16. maí kl. 19:15.

Árborg, sem var eitt af tveimur 4. deildarliðum í pottinum, fær einnig heimaleik, gegn 2. deildarliði Víðis. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2001 sem Árborg kemst í 32-liða úrslitin. Leikurinn verður á JÁVERK-vellinum 17. maí kl. 19:15.

Ægismenn, sem leika í 3. deild, fara norður fyrir heiðar og leika á útivelli gegn Inkasso liði Þórs á Akureyri. Þetta er í annað sinn sem Ægir kemst í 32-liða úrslitin en það gerðist síðast árið 2004. Leikurinn varður á Þórsvelli 16. maí kl. 18:00.

Fyrri greinDagskrá Landsmóts UMFÍ 50+ liggur fyrir
Næsta greinÖnnu Gretu sagt upp í Flóaskóla – segir uppsögnina ólöglega