Tveimur kajakræðurum bjargað úr sjó við Þjórsárós

Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning klukkan 21:13 í gærkvöldi um tvo menn í vandræðum á kajökum í briminu við Þjórsárós. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og var mönnunum bjargað úr sjónum.

Þegar útkallið barst fóru björgunarsveitir, sjúkralið og lögregla fóru þegar á staðinn. TF-LIF fór í loftið klukkan 21:44 og TF-GNA stundarfjórðungi síðar.

Þegar björgunarlið kom á vettvang sáust kajakarnir á hvolfi austan við ósinn og þyrluáhafnirnar sáu til mannanna í briminu mun vestar.

Þyrlurnar lentu fyrst í fjörunni til þess að taka um borð lögreglumann og ættingja annars mannanna. Sá var í símasambandi við annan þeirra sem var í sjónum og auðveldaði það leitina.

Annar maðurinn var hífður um borð í TF-LIF og var sá orðinn þrekaður og kaldur. Sigmaður TF-GNA bjargaði hinum manninum úr sjónum örfáum mínútum síðar, en þá var klukkan um hálfellefu.

Á leiðinni til Reykjavíkur lentu þyrlurnar á Selfossi svo læknir gæti farið úr TF-LIF yfir í TF-GNA til að sinna manninum sem þar var. Þyrlurnar lentu svo við Landspítalann í Fossvogi um klukkan hálftólf.

Ekki er vitað um líðan mannanna á þessari stundu.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn slyssins.

Ölduhæð var svo mikil að ekki var unnt að koma út björgunarbátum. Það er mat lögreglumanna á staðnum að það hafi skipt sköpum við björgunina að tvær þyrlur hafi komið á staðinn.

Fyrri greinÁrborg og Ægir áfram í bikarnum
Næsta greinAnnar kajakræðarinn látinn