Ákveðin stefna að tæma ríkisjarðir

Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, gagnrýnir að ríkið hafi árum saman horft upp á jarðir fara í eyði án þess að þær séu auglýstar.

Hvergi á landinu er hlutfall ríkisjarða hærra en í Skaftárhreppi, en fjöldi þeirra er í Meðallandi.

RÚV greinir frá þessu.

„Flestar eða mjög stór hluti af þeim er kominn í eyði. Þrátt fyrir leiðir til þess að selja og setja aftur á ábúð og auglýsa þá hefur það ekki verið gert. Stjórnvöld hafa hingað til borið fyrir sig að það sé stefnumótunarvinna í gangi. En sú stefnumótunarvinna hefur verið í gangi í einhver ár. Mér finnst það vera ákveðin stefna að gera ekki neitt. Það er svona ákveðin stefna í gangi þá að halda þessu jörðum í eyði, það er ákveðin stefna,“ segir Eva.

Eva Björk segir mikið í húfi í Skaftárhreppi. „Þetta sveitarfélag samanstendur af landbúnaði og ferðaþjónustu. Það eru aðal atvinnuvegirnir okkar. Það verður erfiðara og erfiðara með hverju árinu sem líður að taka við svona jörð. Í hvert skipti sem það fýkur járnplata af húsi; þú getur ímyndað þér skemmdirnar sem verða heilt ár á eftir. Og það má ekki gera við einu sinni, það má ekki halda við út af stefnumótun. Það er mjög sárt að horfa á góðar landbúnaðarjarðir lagðar í eyði.“

Frétt RÚV

Fyrri greinEldur í sinu á Selfossi
Næsta greinÍbúar mótmæltu umferðarþunga á Tryggvagötunni