„ML getur ekki án íþróttahússins verið!“

Skólanefnd Menntaskólans að Laugarvatni lýsir þungum áhyggjum yfir því að enn er það óleyst hver mun verða húsráðandi núverandi íþróttahúss og sundlaugar Háskóla Íslands á Laugarvatni þar sem Íþróttafræðasetur HÍ hefur verið lagt niður.

Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á fundi skólanefndar í síðustu viku.

ML hefur hingað til leigt íþróttaaðstöðu, vegna kennslu og íþróttaiðkunar nemenda, af Háskóla Íslands en einnig hafa ýmsir viðburðir á vegum menntaskólans farið fram í íþróttahúsinu tengt félags- og íþróttalífi. Svo og hefur útskrift og skólaslit ML vor hvert farið fram í Íþróttahúsinu í áratugi.

„Ef ML mun ekki fá að nýta aðstöðu þá sem um ræðir til þeirra þátta sem nefndir eru verður grafið mjög undan framtíð skólans og samfélagsins. ML getur ekki án íþróttahússins verið!“ segir í bókun skólanefndar.

Í bókuninni segir einnig að öflugt íþrótta- og félagslíf hafi verið eitt af aðalsmerkjum ML frá stofnun skólans. Íþróttakennsla og íþróttaiðkun nemenda sé skólanum og nemendum afar mikilvæg. ML er Heilsueflandi framhaldsskóli og hefur lagt ríka áherslu á hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl.

Skólanefnd ML hvetur ráðherra mennta- og menningarmála og ráðherra fjármála að finna viðhlýtandi lausn til framtíðar hið allra fyrsta.

Bókun skólanefndar var samþykkt samhljóða og hefur skólameistari sent hana öllum þingmönnum Suðurkjördæmis, fjölmiðlum, ráðherrum fjármála og menntamála og sveitarstjórnum á Suðurlandi.

Fyrri greinHeimkynni og Óþekkt í listasafninu
Næsta greinFluttur í hjólastól í fangageymslu