„Ábyrgð á öryggi íbúa og gesta er í húfi“

Ástand vegakerfisins í Bláskógabyggð er óviðunandi en helstu ferðamannastaðir landsins eru í sveitarfélaginu á álagið á vegakerfið eftir því.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar í gær fór fram umræða um samgöngumál í sveitarfélaginu og segir sveitarstjórn að í ljósi sívaxandi ferðamannastraums þá sé vegakerfið engan veginn í stakk búið til að taka við þessari miklu umferð. Um síðustu helgi fór stór fólksflutningabifreið útaf vegi í þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem vegkantur gaf sig. Einnig er bundið slitlag að brotna upp mjög víða, sem skapar mikla hættu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar beinir því til Vegagerðarinnar og ríkisvaldsins að við óbreytt ástand verði ekki unað.

„Veita þarf mun meira fjármagni til uppbyggingar og viðhalds vega á þessum þungu ferðamannaleiðum innan Bláskógabyggðar. Ábyrgð á öryggi íbúa og gesta er í húfi og ríkisvaldið getur ekki látið undir höfuð leggjast að sinna lögbundnu og nauðsynlegu hlutverki sínu. Haga þarf fjárveitingum til vegaframkvæmda á skynsamlegan og ábyrgan hátt sem byggð er á þjóðhagslegum forsendum og umferðarþunga, en að áliti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er mikil vöntun á að svo sé,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

„Sveitarstjórn krefst þess að vinnu við gerð samgönguáætlunar sé byggð á fyrrgreindum forsendum og í takt við fjárlög og fjármálaáætlun ríkisins. Það ætti ekki að vera erfiðleikum bundið að láta áætlanir ganga í takt þar sem Alþingi Íslendinga vinnur og samþykkir þessar áætlanir. Misræmi milli áætlana ríkisins er ekki í neinum tilfellum réttlætanleg og í raun lítilsvirðing við almenna borgara,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Gríðarlegur umferðarþungi er í Bláskógabyggð en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fóru 684.994 ökutæki um Mosfellsheiði á síðasta ári, 677.818 ökutæki um veginn að Gullfossi og 1.262.360 ökutæki óku Biskupstungnabraut um hringveg. Til samanburðar bendir sveitarstjórn á að 506.635 ökutæki hafi ekið yfir Holtavörðu heiði á sama tíma.

„Það er ljóst að um vegakerfi innan Bláskógabyggðar fara mun fleiri ökutæki en á hringvegi 1 víðsvegar um landið. Það er því miður nauðsynlegt, ef ekki verður gerð bragabót á þessu vegakerfi, að lækka verður verulega hámarkshraða innan marka Bláskógabyggðar,“ segir í niðurlagi bókunar sveitarstjórnar.

Fyrri greinHamar í lykilstöðu í einvíginu
Næsta greinGestum boðið um borð í Mykines