„Klárlega ein af þeim betri“

„Ég er náttúrulega í skýjunum og átti alls ekki von á því að myndin kæmist in á hátíðina,“ segir Brúsi Ólason frá Litlu-Sandvík í Sandvíkurhreppi.

Stuttmynd Brúsa, Sjáumst, var á dögunum valin úr stórum hópi umsækjenda til að taka þátt í stuttmyndahátíðinni í Aspen Shortfest, Colorado.

„Kvikmyndahátíðin er haldin í 26. skiptið í ár og er líklega topp tveimur stuttmyndahátíðum í Bandaríkjunum. Það voru í kringum 4.000 stuttmyndir sendar inn og 64 stuttmyndir sem komust að,“ segir Brúsi en hátíðin hefst í dag, þriðjudag og stendur til 9. apríl næstkomandi. Mynd Brúsa verður frumsýnd á hátíðinni þann 6. apríl.

„Við erum búin að vera að senda myndina á fullt af hátíðum upp á von og óvon en þessi er klárlega ein af þeim betri sem við erum búin að senda myndina á,“ segir Brúsi.

Sjáumst, eða See Ya eins og hún nefnist á ensku, var tekin upp á Selfossi og í Litlu-Sandvík síðastliðið sumar. „Kvikmyndin fjallar um síðasta dag fótboltastráks á Selfossi áður en hann flytur út í atvinnumennsku. Bara svona klassísk Selfoss saga,“ segir Brúsi en hann leggur stund á leikstjórn og handritaskrif í Columbia háskólanum í New York í Bandaríkjunum.


Frá tökum síðastliðið sumar.

Mikill heiður
Aðspurður hvað það þýði að fá kvikmynd inn á hátíð sem þessa segir Brúsi segir að það sé fyrst og fremst mikill heiður. „Þetta er heiður fyrir mig og alla þá sem komu að myndinni á einn eða annan hátt. Svo er þetta svolítið svona bolti sem fer vonandi að rúlla. Þegar maður er kominn inn á eina hátíð er oft stutt í þá næstu hef ég heyrt. Fyrir mig persónulega er þetta líka bara mjög skemmtileg upplifun!“

„Við förum þrír á hátíðina – ég, Kári Úlfsson, framleiðandi og Dan Slottje sem skrifaði handritið með mér. Við fáum að hitta allskonar fólk sem tengist kvikmyndariðnaðinum,“ segir Brúsi sem er vonum spenntur fyrir hátíðinni.

„Framhaldið fyrir Sjáumst er bara vonandi að koma henni inn á fleiri hátíðir og kannski vinna verðlaun einhvertímann. Sjáum til,“ segir Brúsi sem vill koma á framfæri þakklæti til allra sem komu að myndinni.

Fleiri kvikmyndir eru í bígerð hjá Brúsa á næstunni, en næsta mynd hans fjallar um einstæða konu á sveitabæ. Verður sú kvikmynd einnig tekin upp á Íslandi.

Facebooksíða Sjáumst.

Sjáumst – Short Film (Official trailer) from Brúsi Ólason on Vimeo.

Fyrri greinSparkaði í andlit lögreglumanns
Næsta greinSteinn bauð lægst í göngustígana