Síminn eflir 4G á Suðausturlandi

Síminn hefur stækkað 4G kerfi sitt á Suðausturlandi með gangsetningu sex nýrra 4G háhraðasenda. Staðir sem nú bætast við eru Skaftafell, Háöxl, Jökulsárlón, Nesjar, Dyrhólaey og Lón í Öræfum.

„Þeir sem nota farsímanetið eiga að finna mikinn mun á hraða þjónustunnar, en við sjáum að á landsvísu fara nú meiri gögn um 4G kerfið en 3G kerfið,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

Farsímakerfi Símans hefur vaxið ört síðustu misseri og reiknar Síminn með að fjölga 4G sendum um 40% milli ára. Sendarnir á Suðausturlandi eru meðal nærri 30 nýrra 4G senda sem hafa verið settir upp það sem af er ári.

„Svona kraftmikil uppbygging á þessum árstíma er óvanaleg en nefna má að að nú standa til að mynda nýir 4G sendar við Sólheima, Grundartanga auk þess sem 4G samband er nú í öllum Skagafirði eftir að settir voru upp 5 nýir sendar þar.“

Um 100% vöxtur er í gagnanotkun á farsímakerfinu milli ára. „Við sjáum risastökk þessa fyrstu mánuði frá sama tíma í fyrra. Það er krefjandi verkefni að halda gæðunum í kerfinu miðað við þessa aukningu ár eftir ár, þar sem notendur deila hraðanum sín á milli sem sendarnir ná. Við höldum því vel á spöðunum við uppbygginguna,“ segir Gunnhildur og bætir við að stefnt sé að því að halda uppi afköstunum og þeim mikla hraða sem mælist á kerfum Símans.

„Allir 4G sendar í kerfi Símans styðja allt að 150 Mb/s hraða, hluti senda styður 225 Mb/s og hafnar eru prófanir á sendum sem ná allt að 300 Mb/s hraða í þeirri viðleitni. Það er ör þróun frá því að 4G var kynnt til leiks með 100 Mb/s hraða.“

Fyrri greinNýjar merkingar á öllum slökkvibílum
Næsta greinKFR sektað um 60 þúsund krónur