Nýjar merkingar á öllum slökkvibílum

Brunavarnir Árnessýslu stefna að því að öll þeirra forgangstæki verði merkt í svokölluðum Battenburg merkingum innan skamms. Gríðarsterkt endurskin er í merkingunum og lýsast tækin nánast upp í myrkri sé á þau lýst með bílljósum

Sýnileiki þessara tækja er mikilvægur en í frétt frá BÁ segir að það sé ljóst að ekki beri allir sama fegurðarskyn á merkingarnar, en fegurð er ekki það sem málið snýst um. Merkingarnar eru fyrst og fremst til þess að auka öryggi björgunaraðila og borgara. Hinn almenni borgari verður mun betur var við þessi tæki í umferðinni með þessum merkingum ásamt forgangsljósabúnaði bílanna og hefur því enn betri tíma til þess að víkja ef á þarf að halda.

Þegar bílslys verða eru tæki slökkviliðsins oft notuð til þess að skýla slysavettvangi, stundum í slæmu skyggni og myrkri. Nýju merkingarnar minnka enn líkurnar á að aðvífandi umferð keyri inn í vettvanginn með tilheyrandi afleiðingum fyrir þá sem þar starfa og þeirra sem eru hjálparþurfi.

Fyrri greinStórt tap í síðasta heimaleiknum
Næsta greinSíminn eflir 4G á Suðausturlandi