Sláturbann og bann á flutningum nautgripa

Matvælastofnun hefur lagt bann á markaðssetningu afurða og slátrun til manneldis og flutning gripa frá bænum Eystri-Grund við Stokkseyri.

Nautgripir á bænum höfðu aðgang að óvörðum og götuðum sekkjum af kjötmjöli sem ætlað var að nota sem áburð í flög en kjötmjöl er óheimilt í fóðri fyrir dýr í matvælaframleiðslu.

Umfangsmikil löggjöf bannar notkun á kjötmjöli sem fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru til manneldis til að hindra að heilahrörnunarsjúkdómar berist í menn og dýr.

Þrátt fyrir að kjötmjölið hafi verið ætlað til notkunar sem áburður í flög þá var ljóst að nautgripir höfðu óheft aðgengi að sekkjunum um nokkra mánaða skeið. Göt voru á sekkjunum eftir tæki sem notað hefur verið til að koma sekkjunum á planið og höfðu fuglar gatað sekkina enn frekar.

Þó svo að ekki hafi verið um ætlaða fóðurgjöf að ræða heldur andvaraleysi þá voru ummerki á staðnum um að nautgripir hafi verið við sekkina, þannig að sýnt þykir að mati Matvælastofnunar að nautgripirnir hafi sleikt og étið kjötmjöl úr þeim.

Með ákvörðuninni er óheimilt að slátra gripunum til manneldis eða flytja þá af búinu. Bannið nær ekki til þeirra gripa sem haldnir voru inni í gripahúsi og höfðu ekki aðgang að kjötmjölinu.

Matvælastofnun hefur lagt fyrir ráðherra tillögur að fyrirskipun um förgun og eyðingu á þeim gripum sem hafa haft óheft aðgengi að kjötmjölinu.

Fyrri greinÞórsarar komnir í sumarfrí
Næsta greinÖkumaður stöðvaður með tíu lítra af 95% landa