Lions úthlutaði hátt í tveimur milljónum króna

Lionsklúbbur Selfoss úthlutaði styrkjum úr menningar- og líknarsjóði klúbbsins með viðhöfn í safnaðarheimili Selfosskirkju fyrir stuttu.

Selfosskirkja fékk 500 þúsund króna styrk til kaupa á myndkerfi til endurvörpunar á athöfnum úr kirkjunni yfir í safnaðarheimilið.

Héraðskjalasafn Árnesinga fékk 300 þúsund króna styrk til kaupa á búnaði til að taka viðtöl við “frumbyggja” á Selfossi og nágrannabyggðum. Upphæðin greiðist á þremur árum.

Ljósheimar og Fossheimar á Selfossi fengu 200 þúsund krónur til aðstoðar við upphaf notkunar á slökunar og skynjunaraðstöðu fyrir heilabilaða einstaklinga.

Tónsmiðja Suðurlands fékk 130 þúsund króna styrk til kaupa á söngkerfi til notkunar í söngkennslu.

Menningar og líknarsjóðurinn styrkti einnig einstakling vegna veikinda hans um 200 þúsund krónur.

Sjóðurinn góði fékk 150 þúsund króna styrk en hann starfar í Árnessýslu og er samstarfsverkefni Lionsklúbba, kvenfélaga, kirkna og Rauðakrossins. Sjóðurinn styrkir þá sem höllum fæti standa.

Vegna 100 ára afmælis Lionshreyfingarinnar veitti klúbburinn einnig, í samvinnu við Lionsklúbbinn Emblu, samtals 300 þúsund krónur til umhverfismála. Verkefnið er að koma upp bekkjum og borðum við gönguleiðir og er unnið í samvinnu við Sveitarfélagið Árborg.

Fyrri greinÞrjár heimakonur semja við Selfoss
Næsta greinRosalegt kvöld í Hveragerði – Oddaleikur á laugardag