Fá launað frí í fjórar vikur fyrir fæðingu

Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur samþykkt að barnshafandi starfsmenn Hveragerðisbæjar eigi möguleika á launuðu fríi einum mánuði fyrir settan fæðingardag.

Í minnisblaði bæjarstjóra með tillögunni kom fram að Hveragerðisbær er stærsti vinnuveitandi bæjarfélagsins með um 200 starfsmenn.

Starfsmenn bæjarins vinni afar mikilvæg og krefjandi störf sem flest hver felast í líkamlegri áreynslu og/eða andlegri. Það sé mikilvægt að koma til móts við starfsmenn sveitarfélagsins á stóru stundunum í lífi þeirra og létta undir þar sem það er hægt.

„Það má færa sannfærandi rök fyrir því að jafn stórum vinnuveitenda og Hveragerðisbæ beri að leggja sín lóð á vogaskálarnar í þeim tilgangi að auðvelda starfsmönnum að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku,“ segir í tillögunni sem var samþykkt samhljóða og tekur fyrirkomulagið þegar gildi.

Fyrri greinJón Daði og Viðar báðir í hóp
Næsta greinStórt tap í Laugardalshöllinni