„Skemmtileg stund fyrir fjölskyldur og vini“

Næstkomandi sunnudag stendur Kraftur fyrir perlustund í Fjölheimum á Selfossi sem ber heitið „Perlað með Krafti“. Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þess.

„Perlað með Krafti er stund þar sem fólk getur komið saman og perlað fyrir gott málefni. Þar eru perluð armbönd með áletruninni „LÍFIÐ ER NÚNA“ en allur ágóði af sölu þeirra rennur beint til Krafts. Þetta er bara eins og að gefa blóð, þú kemur og perlar og við gefum þér kaffi og með því,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, formaður Krafts.

Hulda segir að perlustundin sé fyrir alla þá sem geta perlað. „Þetta er mjög skemmtileg stund fyrir fjölskyldur, vini, vinkonur. Armböndin eru auðveld í samsetningu svo allir ættu að geta tekið þátt.“

„Í janúar voru tvær perlustundir í Reykjavík og við höfum fengið margar fyrirspurnir um það hvort við ætlum ekki að koma út á land. Okkur fannst flott fyrsta skref að fara með þetta á Selfoss og munum síðan fara á fleiri staði á landsbyggðinni þegar líða tekur á vorið,“ segir Hulda.

Armböndin eru öll gerð af sjálfboðaliðum en hægt er að nálgast þau í vefverslun Krafts á slóðinni www.kraftur.org/vefverslun.

Sem fyrr segir er perlustundin næstkomandi sunnudag frá kl. 13-17 í Fjölheimum á Selfossi. Heitt á könnunni og veitingar til að gæða sér á á milli armbanda. Hægt er að fá frekari upplýsingar um viðburðinn á Facebook eða á heimasíðu Krafts.


Perlustund á KEX hostel fyrr á árinu. Ljósmynd: Stína Terrazas

Fyrri greinDagbjartur kjörinn íþróttamaður Hamars
Næsta greinD.Ing-verk bauð lægst í Kirkjuveginn