Skora á Árborg að hefja flokkun á plasti

Nokkrir nemendur í 10. bekk í Sunnulækjarskóla á Selfossi tóku að sér að fjalla um plast og notkun á plasti í skólanum. Skoðaður var kostnaður á plastpokum í ruslafötur á kennslusvæðum og áhrif plasts á umhverfið.

Nemendurnir komust að því að notaðir eru plastpokar fyrir tæpar 300.000 kr á ári.

Í niðurstöðum nemendanna segir að stefna í flokkunarmálum hjá Sveitarfélaginu Árborg sé mjög óljós og flest heimili í sveitafélaginu flokka almennt ekki plast.

Í nýlegum fréttum kemur fram að Sameinuðu þjóðirnar hafa hrint af stað alheimsherferð sem gegnir nafninu Clean Seas, eða Hreint haf þar sem þjóðir heims eru hvattar til draga úr notkun plastnotkun og þá sérstaklega fyrirtæki hvött til að minnka plastumbúðir á vörum sínum. Markmið herferðarinnar er að hætta allri notkun á einnota plasti fyrir árið 2022. Talið er að ef engin breyting verður á plastnotkun í heiminum að þá verði jafn mikill fiskur og plast í sjónum og að um 99% sjófugla verði með plast í maganum árið 2050.

„Það tekur plast um 500 ár að eyðast í náttúrunni og hefur það sérstaklega slæm áhrif á lífríki hafsins. Fyrir skóla eins og okkur væri lítið mál að sleppa notkun á einnota plastpokum. Þetta snýst bara um að koma hlutunum í framkvæmd. Við skorum á sveitafélagið að taka fyrsta skrefið og hefja flokkun á plasti og hrinda af stað herferð um að minnka notkun á einnota plasti,“ segir ennfremur í niðurstöðum hópsins.

Fyrri greinRæktó styrkir fimleikadeildina
Næsta greinLögreglubíll í forgangsakstri lenti í árekstri