Innbrotin ennþá óupplýst

Innbrot í fjögur íbúðarhús á Selfossi fyrr í mánuðinum eru enn óupplýst en rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi hefur lagt mikla vinnu í rannsókn málsins síðustu daga.

Brotist var inn í tvö hús við Engjaveg á Selfossi og eitt í Ártúni helgina 18.-19. febrúar, og síðar var tilkynnt um innbrot í íbúðarhús við Sólvelli.

Snemma í síðustu viku var par handtekið en það reyndist ekki hafa átt aðild að innbrotunum. Hins vegar er fólkið grunað um fíkniefnaneyslu og er það mál í vinnslu hjá lögreglunni.

Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, hefur lögreglan fengið vísbendingar um að aðkomufólk, karl og kona, eigi aðild að innbrotunum á Selfossi. Þau hafa aðallega sóst í erlendan gjaldeyri, skartgripi og snyrtivörur sem lítið fer fyrir í tösku. Lögreglan telur fullvíst að sömu aðilar hafi framið öll innbrotin þar sem verksummerki voru með sama hætti á öllum stöðunum.

Engin innbrot hafa verið tilkynnt síðustu daga á Selfossi.

Lögreglan vill hvetja fólk til að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum gerendum og tilkynna grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. Jafnframt óskar lögregla eftir hverskyns upplýsingum sem almenningur kann að búa yfir og varpað gætu ljósi á málið.

Fyrri greinSelfyssingar bikarmeistarar í 4. flokki
Næsta greinRæktó styrkir fimleikadeildina