Samningur til eflingar íþróttastarfs barna og unglinga

Fyrr í mánuðinum var undirritaður samningur milli Rangárþings eystra og Íþróttafélagsins Dímonar. Styrkupphæð samningsins skal varið í uppbyggingu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu.

Samningnum er ætlað að efla samstarf milli sveitarstjórnar og Dímonar og tryggja öflugt íþrótta-, tómstunda-, og æskulýðsstarf fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið mun styrkja Dímon árlega um 3,9 milljónir króna árin 2017 til 2019.

Dímon mun meðal annars vinna að því í samvinnu við sveitarfélagið að auka samfellu í tómstunda- og skólastarfi þannig að grunnskólabörnum standi til boða dagskrá við hæfi að loknum skóladegi. Markmiðið er að sem flest börn hafi lokið starfsdegi sínum á sama tíma og hefðbundnum vinnudegi lýkur.

Þá fær Dímon aðgang að öllum íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins fyrir deildir sínar og reiknast sú notkun sem styrkur til félagsins.

Fyrri greinAllir leikmenn Hamars komust á blað
Næsta greinÓfærð um allt Suðurland – Hellisheiði opin