Sveitarfélagið dæmt til að greiða Gámaþjónustunni skaðabætur

Sveitarfélagið Árborg var, í Héraðsdómi Suðurlands í gær, dæmt til að greiða Gámaþjónustunni hf. rúmar 18,6 milljónir króna með vöxtum og 5,5 milljón króna málskostnað vegna ákvörðunar sveitarfélagsins að hafna öllum tilboðum í sorpútboði árið 2011.

RÚV greinir frá þessu.

Þáverandi meirihluti hafnaði tilboðum frá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu á sínum tíma og gaf þá skýringu að formgalli hefði verið á útboðinu – því hefði verið hætt við það.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að sveitarfélagið hafi hafnað öllum tilboðum í verkið eftir að forstjóri Íslenska gámafélagsins sendi bæjarstjórnarmanni tölvupóst og að fengnu minnisblaði lögmannsstofu.

Gámafélagið, sem átti hagkvæmasta tilboðið, taldi að ákvörðun Árborgar hefði verið ólögmæt og að sveitarfélaginu hefði verið skylt að semja við fyrirtækið.

Árborg mótmælti því og sagði að sá galli hefði verið á útboðinu að fyrirtækin hefðu ekki verið krafin um að skila með tilboðum sínum gögnum um aðra þætti en tilboðsfjárhæðina.

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram í málinu að forsendur fyrir útboðinu hafi brostið.

Frétt RÚV

Fyrri greinÞingmenn heimsóttu HSU
Næsta greinAllir erlendu leikmennirnir á Selfossi læra íslensku