Hafnaði á hvolfi ofan í skurði

Tveir voru fluttir á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi eftir bílveltu á Suðurlandsvegi austan við Ingólfshvol í Ölfusi laust fyrir klukkan níu í morgun.

Þar hafði ökumaður fólksbíls misst stjórn á bíl sínum í krapa og hafnaði bíllinn á hvolfi ofan í skurði. Afleit færð var á Suðurlandsvegi á þessum tíma, krapi og talsverð ofankoma.

Tveir menn voru í bílnum og komust þeir ekki út úr bílnum af sjálfsdáðum. Það vildi þeim til happs að ekki var mikið vatn í skurðinum á þessum stað en engu að síður voru þeir blautir og kaldir.
Greiðlega gekk að ná mönnunum út eftir að viðgragðsaðilar komu á vettvang. Mennirnir hlutu minni háttar meiðsli og voru fluttir á slysadeild til frekari rannsóknar.

Suðurlandsvegi var lokað um tíma og var talsvert mikill viðbúnaður vegna slyssins en ásamt lögreglu komu að þessu verkefni sjúkraflutningamenn HSU og slökkviliðsmenn á tækjabíl frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði.

Fyrri greinÞrengslavegi lokað vegna flutningabíls
Næsta greinAfurðir skóga á Suðurlandi kortlagðar