Hátt í 40% taka þátt

Mjög góð þátttaka er í verkefninu „Fjölþætt heilsurækt í Rangárþingi eystra“ sem hleypt var af stokkunum í janúar síðastliðnum.

Í kvöld var haldinn fyrirlestur um verkefnið í Hvolnum á Hvolsvelli þar sem dr. Janus Guðlaugsson, leiðbeinandi verkefnisins, flutti erindi. Verkefnisstjórar eru Aníta Þorgerður Tryggvadóttir og Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir, meistaranemar í íþrótta- og heilsufræðum.

Fyrirlesturinn var vel sóttur en 62 íbúar taka þátt í verkefninu, 41 kona og 21 karl, á aldrinum 59-81 árs. Meðalaldurinn er 71 árs, en hátt í 40% íbúa sveitarfélagsins í þessum aldurshópi eru þátttakendur í verkefninu.

Rangárþing eystra er fyrsta sveitarfélag landsins sem tekur þátt í viðlíka verkefni en markmið þess er að bæta afkastagetu hinna eldri, auka þol þeirra og styrk og efla hreyfifærni með markvissri þjálfun. Hópurinn fær fjölþætta þjálfun, næringarráðgjöf og fræðslu í tólf vikur.

Stefnt er að því að halda verkefninu áfram til lengri tíma að þessum tíma liðnum og stuðla þannig áfram að bættum lífsgæðum eldri aldurshópa í sveitarfélaginu.

Fyrri greinSelfoss fékk Stjörnuna í undanúrslitum
Næsta greinSlökkviliðsmenn skoðuðu SS á Selfossi