Slökkviliðsmenn æfðu í Búrfelli

Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnesinga stunda reglulega verklegar æfingar en um síðustu helgi hélt Árnesstöð BÁ æfingu við Búrfellsvirkjun í samvinnu við slökkviteymi Íslenskra aðalverktaka, sem vinna að stækkun Búrfellsvirkjunar.

Kveikt var í vörubrettum við skemmusvæði Búrfells og var hlutverk slökkviteymisins að hefja slökkvistarf áður en slökkviliðsmenn frá Árnesi komu á staðinn. Slökkviteymið notaðist þá við slökkvikerru sem staðsett er við virkjunina auk þess sem þeir æfðu fjarskiptasamskipti við slökkviliðsmennina.

Þegar slökkviliðið mætti á vettvang æfðu slökkviliðsmenn reykköfun og leit að manneskju inni í skemmu á meðan slökkviteymið sá um vatnsöflun.

Að lokinni æfingu fengu BÁ menn skoðunarferð um svæðið.

Fyrri greinBikarinn áfram í Vesturbænum
Næsta greinUnnur Lísa útnefnd Skyndi-hjálparmaður ársins