Ný hjúkrunardeild tekin í notkun á Lundi

Átta vel búnar hjúkrunaríbúðir eru í nýrri hjúkrunardeild við dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu sem var formlega tekin í notkun síðastliðinn föstudag.

Með tilkomu hennar eiga nú allir íbúar hjúkrunarheimilisins kost á einbýli. Deildin er hönnuð með þarfir heilabilaðra að leiðarljósi.

Skipulag deildarinnar byggist á viðmiðum velferðarráðuneytisins um hjúkrunarheimili þar sem áhersla er lögð á fámennar hjúkrunareiningar og heimilislegar aðstæður.

„Hér hefur verið framkvæmt af metnaði – og við eigum líka að sýna metnað til þess að búa vel að öldruðum í samfélaginu, veita þeim góða þjónustu og stuðning sem þess þurfa með og mæta ólíkum þörfum fólks af skilningi og virðingu,“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í stuttu ávarpi við vígslu hjúkrunardeildarinnar og óskaði heimamönnum til hamingju með ánægjulegan áfanga í uppbyggingu öldrunarþjónustu á Suðurlandi.

Ráðherra vísaði í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar þar sem fram kemur að aukinn þungi verði settur í uppbyggingu öldrunarþjónustu með sérstakri áherslu á heimahjúkrun og hjúkrunarheimili, fjölgun dagþjálfunarrýma og styttri bið eftir þjónustu.

„Það er mikil þörf á því að efla þessa þjónustuþætti og sú þörf eykst samhliða fjölgun aldraðra“ sagði Óttarr ennfremur í ávarpi sínu.

Klippt var á borða til að opna deildina formlega en það gerðu Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps, Trausti Runólfsson, íbúi á Lundi, Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarforstjóri Lundar, Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, Drífa Hjartardóttir, stjórnarformaður Lundar, Þóra Þorsteinsdóttir, íbúi á Lundi og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Fyrri greinHaukar draga kæruna til baka – Selfoss tvöfaldur sigurvegari
Næsta greinBjörgvin sigraði og setti fimm Íslandsmet