Sautján sunnlensk framúrskarandi fyrirtæki

Sautján sunnlensk fyrirtæki stóðust styrkleikamat Creditinfo og teljast því vera Framúrskarandi fyrirtæki árið 2016.

Síðastliðin sjö ár hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu sem sýnir rekstur hvaða íslensku fyrirtækja telst til fyrirmyndar. Að þessu sinni komust 624 fyrirtæki á listann af þeim rúmlega 35.000 sem skráð eru í hlutafélagaskrá. Viðurkenningar til fyrirtækjanna voru veittar í vikunni.

Í flokki stórra fyrirtækja eru JÁVERK ehf og Set ehf á listanum. Flest fyrirtækin eru í flokki meðalstórra fyrirtækja en það eru Fossvélar ehf., Tölvu- og rafeindaþjónusta Suðurlands ehf. og Guðmundur Tyrfingsson ehf., öll á Selfossi. Í uppsveitunum eru það ferðaþjónustufyrirtækin Gullfosskaffi ehf. og Hótel Geysir ehf., garðyrkjustöðin Gufuhlíð ehf. í Reykholti og Landstólpi ehf. í Gunnbjarnarholti.

Kjörís ehf. í Hveragerði er einnig í hópi framúrskarandi fyrirtækja, sem og Jarðefnaiðnaður ehf. í Þorlákshöfn og Eldhestar ehf. í Ölfusi.

Verktakafyrirtækið Þjótandi ehf. á Hellu er á listanum ásamt ferðaþjónustufyrirtækinu E. Guðmundsson ehf. í Vík í Mýrdal, Höfðabrekka ehf. sem rekur hótel í Mýrdal og Bæ ehf. sem rekur hótelið á Kirkjubæjarklaustri.

Eitt sunnlenskt fyrirtæki er á listanum yfir lítil fyrirtæki en það er verktakafyrirtækið Nesey ehf. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, einnig þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir þeirra 80 milljónir eða meira þrjú ár í röð.

Fyrri greinHarma að stjórnvöld fylgi ekki ákvæðum rammasamnings
Næsta greinHvorugt liðið hyggst leggja fram kæru