Unnið að endurbótum á Reykjum á árinu

Gert er ráð fyrir að 70 milljónum króna verði varið í uppbyggingu og endurbætur á húsakosti Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi á þessu ári.

Þetta kemur fram í viðtali við Björn Þorsteinsson, rektor skólans, í Bændablaðinu.

Við gerð nýs fjárlagafrumvarps var ákveðið að leggja 70 milljónir króna til viðgerða á húsakosti að Reykjum. Björn rektor segir að meira fjármagn þurfi til að koma húsnæði skólans í viðeigandi horf.

„Viðhaldsleysi skólans hefur verið langvarandi vegna fjármagnsskorts og því nauðsynlegt að kortleggja framkvæmdirnar vel. Fjármagnið dugar til að hefja fyrstu aðgerðir og gera framkvæmdaáætlun um næstu skref. Ekkert hefur enn verið ákveðið með röð framkvæmda og greiningavinna er að fara í gang í samstarfi við fasteignaskrifstofu menntamálaráðuneytisins og Ríkiskaupa,“ segir Björn.

Fyrri greinSS byggir 24 raðhúsaíbúðir fyrir starfsmenn
Næsta greinSkjálfti að stærðinni 4,3 í Kötluöskjunni