Lík Birnu fannst við Selvogsvita

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann lík í fjörunni rétt vestur af Selvogsvita um klukkan eitt í dag. Talið er að það sé lík Birnu Brjánsdóttur sem leitað hefur verið að frá því um síðustu helgi.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til kl. 17:00 í dag.

Selvogsviti er skammt austan við þéttbýlið í Selvogi, um 15 kílómetra vestur af Þorlákshöfn. Þyrlan lenti skammt frá vettvanginum og var lögreglu strax gert viðvart. Hún kom á staðinn skömmu síðar.

Rannsóknarlögreglan telur að líkið sé af Birnu en kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinnur að því að staðfesta það. Lögreglan telur að líkið hafi rekið í fjöruna og er talið að Birnu hafi verið ráðinn bani.

Áfram verður leitað að vísbendingum á svæðinu frá Hafnarfjarðarhöfn og að Selvogsvita.

Á áttunda hundrað björgunarsveitamanna, allstaðar að af landinu, hafa leitað Birnu og vísbendinga um hvarf hennar um helgina. Um klukkan þrjú í dag voru björgunarsveitamenn kallaðir til baka.

Fyrri greinFramlengdur frestur fyrir framboð
Næsta greinLeitað við Óseyrarbrú