Bæjarráð samþykkir úttekt á gólfinu í Iðu

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að láta gera faglega úttekt á gólfefni í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Kostnaður við úttektina nemur 900 þúsund krónum.

Verið er að skoða þann möguleika að handknattleiksdeild Umf. Selfoss flytji starfsemi sína úr íþróttahúsi Vallaskóla yfir í Iðu. Íþróttahús Vallaskóla stenst ekki kröfur um mótsleiki í efstu deildum í handknattleik og hefur deildin verið á undanþágu hjá Handknattleikssambandi Íslands vegna hússins. Síðasta undanþága var veitt með þeim formerkjum að handknattleiksdeildin og sveitarfélagið myndu finna viðunandi lausnir fyrir haustið 2017.

Ef handboltinn fer í Iðu er stefnt að því að körfubolti, frjálsar íþróttir, fótbolti og íþróttir fatlaðra myndu færast þaðan yfir í Vallaskóla.

Lagfæra þarf nokkra hluti í báðum húsunum ef af þessum flutningum á að verða og er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins 2017. Má þar nefna skorklukku og fjölmiðlaaðstöðu í Iðu og auka körfuboltakörfur og þrekaðstöðu í Vallaskóla.

Handknattleiksdeildin lagði fram nokkrar óskir um þætti sem þyrftu að vera í lagi áður en deildin gæti flutt í Iðu og þar vegur þyngst krafa deildarinnar um að skipt verði um gólfefni í húsinu. Kostnaður við þá framkvæmd er í kringum 32 milljónir króna.

Íþróttahúsið Iða var tekið í notkun haustið 2004 og gólfið í húsinu var síðast lagfært árið 2015. Húsið er á forræði Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Á fundi stjórnar handknattleiksdeildarinnar með fulltrúum sveitarfélagsins nú í janúar kom fram að stjórn handboltans óttast að leikmenn myndu lenda í álagsmeiðslum ef þeir æfðu og spiluðu á núverandi gólfi í Iðu og að leikmenn meistaraflokka félagsins vildu ekki æfa á núverandi gólfefni. Á móti bendir sveitarfélagið á að sama gólfefni er á Iðu og í íþróttahúsinu Mýrinni í Garðabæ þar sem leikinn hefur verið handknattleikur frá árinu 2004 og þar á bæ er reynsla starfsmanna og iðkenda góð af gólfinu.

Í framhaldi af fundi stjórnar handboltans og sveitarfélagsins ræddi Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar, við þrjá leikmenn meistarflokks karla og gaf niðurstaða þeirra viðtala alls ekki til kynna að leikmenn vildu ekki æfa eða spila á gólfinu í Iðu.

Þetta kemur fram í minnisblaði Braga sem lagt var fyrir bæjarráð í morgun. Sem fyrr segir samþykkti bæjarráð að ráðast í faglega úttekt á gólfinu.

Fyrri greinÁrborg vill stuðning í Útsvarinu
Næsta greinÖkumenn á Suðurlandi kanni myndefni úr bílum sínum