Sveitarstjórnin hefur áhyggjur af heilsugæslunni

Sveitarstjórn Rangárþings eystra lýsir yfir áhyggjum sínum varðandi heilsugæslu í Rangárþingi eftir að Þórir Kolbeinsson læknir, sem starfað hefur í héraðinu frá árinu 1989, sagði starfi sínu lausu.

Í ályktun sveitarstjórnar segir að nú sé ljóst að læknir með áratuga reynslu og sérmenntun í heimilslækningum hafi sagt starfi sínu lausu en hann var í 75% starfshlutfalli sem ekki fékkst aukið.

„Það er áhyggjuefni þar sem erfitt gæti reynst að fá lækni til starfa í ekki hærra starfshlutfall, þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður heimilislækna á landsbyggðinni eins og forstöðumenn HSU hafa m.a. upplýst um,“ segir í ályktuninni.

Í nóvember skiluðu íbúar Rangárþings undirskriftalista til forstjóra HSU þar sem skorað var á Þóri að halda áfram störfum og um leið að stjórn HSU stuðli að því að þrjár 100% stöður lækna verði mannaðar á heilsugæslustöðvum í Rangárvallasýslu.

Fyrri greinFAS fékk menntaverðlaunin
Næsta greinÞór sýndi FSu enga miskunn